Sterkari stjórnendur með stjórnendaþjálfun

 
 

Kynning á starfsemi Víðsýni og Via Optima í sérblaði Fréttablaðsins 01.10.2022

Anna María Þorvaldsdóttir og Inga Þórisdóttir eru sjálfstætt starfandi stjórnendaþjálfar og vinna með stjórnendum og sérfræðingum sem vilja ná enn betri árangri bæði fyrir sig og hópinn sinn.

Anna María og Inga leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnendur hafi hugrekki til að stíga sterkt inn í hlutverk sitt sem stjórnendur. Áskoranir stjórnenda hafa sjaldan verið jafnmiklar og nú á tímum stöðugra breytinga, meðal annars eftir heimsfaraldurinn. Væntingastjórnun þarf að vera skýr á sama tíma og áhersla sé á sálrænt öryggi og velferð starfsmanna.

„Ég býð upp á stjórnendaþjálfun og fókusinn er að vera sterkur stjórnandi,“ segir Anna María. „Ég nota til þess aðferðafræði markþjálfunar, ráðgjöf, fyrirlestra og hópefli. Ég hef farið í mörg fyrirtæki og fengið til mín stjórnendur í stjórnendaþjálfun og vilja þeir almennt sinna hlutverki sínu sem fyrirmyndarstjórnendur og gera enn betur. Stjórnendur sem ég hef unnið með hafa komið sem einstaklingar og einnig sem stjórnendahópur. Eins hafa fyrirtæki keypt stjórnendaþjálfun fyrir alla sína stjórnendur. Það getur verið erfitt fyrir stjórnendur að tala við samstarfsfélaga sína þegar upp koma áskoranir og þess vegna er gott að vera með óháðan aðila sem hefur ekki neinna hagsmuna að gæta nema hagsmuni viðmælanda síns og þá næst góður árangur með þjálfuninni,“ segir Anna María.

„Þeir tveir þættir sem oftast koma illa út í vinnustaðagreiningum fyrirtækja á Íslandi eru skortur á upplýsingaflæði og endurgjöf og reynist stjórnendaþjálfun sérlega vel í þeim tilvikum.“

Anna María hefur yfir tuttugu ára reynslu í mannauðs- og gæðastjórnun í ýmsum fyrirtækjum á Íslandi og erlendis. Hún hefur reynslu af því að nýta aðferðafræði markþjálfunar við stjórnun í starfi. Hún er með MBA-próf frá Háskólanum í Reykjavík, var ein af þeim fyrstu sem lærði markþjálfun á Íslandi og er með virk ACC-réttindi. Þá starfaði hún í áratug sem gæðastjóri, þar sem ábyrgðarsviðið var innleiðing, samþætting og úttekt ýmissa ISO-staðla.

Að styðja við stjórnendur

Inga Þórisdóttir hjá Via Optima og Anna María hafa unnið saman að fræðsluverkefnum sem snúa að heilbrigðum samskiptum sem hluta af menningu fyrirtækja. Mikilvægt er að hlúa að menningunni og að nýta þá þekkingu, reynslu og hæfni sem býr í mannauði hvers fyrirtækis. Sá þáttur sem hlúa þarf sérstaklega að er sálrænt öryggi á vinnustöðum.

„Ég hef fengið tækifæri til að vinna með ólíkum stjórnendum sem standa frammi fyrir mismunandi áskorunum og það er skemmtilegt að sjá þá ná árangri og finna lausnir í stjórnendaþjálfuninni,“ segir Inga. „Ég beiti aðferðum stjórnendaþjálfunar og eftir því sem við á námskeið og vinnustofur, sem innihalda bæði fræðslu og umræður. Stjórnendur eru oft að glíma við að hafa hugrekki til að ræða óþægileg málefni, taka á frammistöðu og á sama tíma þurfa þeir að hvetja hópinn sinn.“

Inga vinnur bæði með nýjum og reyndum stjórnendum og í sumum tilfellum með allri framkvæmdastjórninni.

„Stjórnendur eru undir mikilli pressu og því árangursríkt að vinna með hlutlausum aðila í að skerpa fókusinn og hafa yfirsýn. Það skapar mikið virði fyrir fyrirtæki sem styðja við stjórnendur sína að vera með stjórnendaþjálfun hjá hlutlausum aðila,“ segir Inga.

Hún heldur námskeið og vinnustofur um starfsmannasamtöl og hefur hún reynslu af því að hafa innleitt tíðari starfsmannasamtöl.

„Á tímum endalausra breytinga er svo mikilvægt að skapa umgjörð um tíðari samtöl milli starfsmanna og stjórnenda.“

Inga hefur rúmlega tuttugu ára reynslu af störfum innan fjármálageirans sem og víðtæka stjórnunarreynslu. Hún hefur reynslu af því að nýta aðferðafræði markþjálfunar við stjórnun.

Inga er viðskiptafræðingur Bsc. frá Háskólanum á Bifröst og er vottaður NLP Master Coach markþjálfi. Þá hefur hún lokið diplómanámi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

 
Previous
Previous

Mannauðsdagurinn